Innlent

Samstarfssamningur í Kína

Viðskiptaháskólinn á Bifröst og Háskólinn í Shanghai undirrituðu í gær samstarfssamning að viðstöddum forseta Íslands og borgarstjóra Shanghai. Í máli borgarstjórans kom meðal annars fram að efnahagur Shanghai hefði áttfaldast á síðustu 11 árum. Ólafur Ragnar sagði að samningurinn væri merkasta framtak íslensks háskóla á erlendum vettvangi hingað til. Samningurinn er um víðtækt samstarf skólanna tveggja varðandi kennslu, rannsóknir og ráðstefnuhald auk þess sem Bifröst og Shanghaiháskóli munu skiptast á kennurum og senda á milli sín nemendur bæði í grunnámi og á meistarastigi. Háskólinn í Shanghai er fjölmennasti háskóli þessarar fjölmennu borgar sem er viðskipta- og fjármálamiðstöð Kína en tæplega 60 þúsund nemendur eru skráðir við skólann og hefur hann af stjórnvöldum þar í landi verið skilgreindur sem einn af lykilháskólum Kína. Forsetahjónin heimsóttu einnig Sjónvarpsturninn í Shanghai sem er sá hæsti af sinni gerð í Asíu og sá þriðji hæsti í heimi og fóru í skoðunarferð um borgina og í gönguferð um ausurlenska miðbæjargarð Yu-garden.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×