Innlent

Fjörurnar fylltust af timbri

Fjörurnar í hjarta Hafnarfjarðar fylltust af timbri frá framkvæmdunum við Norðurbakkann fyrir helgina og þurftu starfsmenn verktakafyrirtækisins Bortækni að ganga í fjörur fyrir og eftir helgina til að hreinsa þær. Pétur Guðnason, verkfræðingur hjá Strendingi, er umsjónarmaður framkvæmdanna. Hann sagðist í gær ekki vita um hversu mikið timbur væri að ræða en það væri mikið og að sá sem bæri ábyrgðina væri nú að "myndast við að hreinsa það". Sú vinna hefði hafist fyrir helgi. "Þeir höfðu ekki staðið sig í að hreinsa timbrið úr haugnum eins og þeir voru búnir að lofa og voru að keyra þetta efni þarna út, þess vegna gerðist þetta. Þeir hafa fengið bágt fyrir og hafa ekkert fyllt upp í þrjá til fjóra daga. Þeir eru nú í því hlutverki að hreinsa upp eftir sig," segir hann. Bortækni sér um að rífa niður húsnæðið við Norðurbakka og hafði fengið leyfi til að brjóta niður efnið úr húsunum og nota sem fyllingu undir göngustíg meðfram höfninni. Hreinsuninni lýkur í dag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×