Erlent

Kvaðst saklaus af öllum ákærum

Í lögreglufylgd. Gotovina gisti í fangelsi í Haag um helgina en kom svo fyrir dómara í gær.
Í lögreglufylgd. Gotovina gisti í fangelsi í Haag um helgina en kom svo fyrir dómara í gær.

Ante Gotovina, Króatinn sem grunaður er um stríðsglæpi gegn Serbum árið 1995, kom í fyrsta sinn fyrir stríðsglæpadómstól Sameinuðu þjóðanna í Haag í gær. Gotovina var handtekinn á Kanaríeyjum á miðvikudaginn eftir ákafa leit undanfarin ár.

Starfsmenn stríðsglæpadómstólsins biðu ekki boðanna því í gær var hann leiddur fyrir réttinn og honum kynntar ákærurnar. Hann kvaðst saklaus af öllum ákæruatriðum. Honum er meðal annars gefið að sök að hafa stýrt fjöldamorðum Króatíuhers í Krajina-héraði í ágúst 1995 þegar í það minnsta 150 Serbar voru stráfelldir og tugþúsundir hraktar af heimilum sínum.

Handtakan er talin afar mikilvæg fyrir stríðsglæpadómstólinn, en að Bosníu-Serbunum Radovan Karadzic og Rato Mladic frátöldum var Gotovina sá maður sem rétturinn lagði mest kapp á að ná. Búist er við að þrýstingur aukist nú mjög á Serba að herða leitina að þeim Karadzic og Mladic. Í gær gerðu hermenn á vegum Atlantshafsbandalagsins í Bosníu húsleit á heimili Dragans Stajcic fyrrverandi ritstjóra sem grunaður er um að stýra hreyfingu sem gætir tvímenninganna. Í fyrradag komu tugþúsundir Króata saman í borginni Split og kröfðust lausnar Gotovina en margir samlandar hans álíta hann þjóðhetju.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×