Erlent

Eldar slokknaðir í olíubirgðastöðinni í Buncefield

Slökkt hefur verið í öllum 20 eldsneytistönkum í Buncefield olíubirgðastöðinni. Enn er þó nokkuð verk óunnið við að slökkva minni elda á svæðinu. Þó slökkviliðsmenn búist við að ljúka slökkvistarfi í kvöld mun svæðið verða vaktað náið á næstu dögum til að tryggja að ekki kvikni aftur í. Raddir eru uppi um að slökkvilið staðarins hafi ekki verið nægilega undirbúið fyrir bruna af þessari stærðargráu og mun það líklega vera rannsakað nánar.

Heilbrigðisyfirvöld á svæðinu segja að lítið af eiturefnum hafi losnað við sprenginguna en þó gæti sót valdið skemmdum á jörðu þegar það fellur niður.

Tryggingasérfræðingar meta skaðann á allt að tvöhundruð milljón sterlingspunda, eða rúma tuttugu og þrjá milljarða króna, og segja slíkt ekki munu valda tryggingarfyrirtækjum miklum skaða. Sprengingin í efnaverskmiðju í Toulouse á Frakklandi árið 2001 hafi til að mynda kostað tryggingarfyrirtæki fimmfalt meira en búist er við að sprenging í Buncefield kosti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×