Erlent

Benedikt XVI er nýr páfi

Þýski kardinálinn Joseph Ratzinger var síðdegis í gær kjörinn nýr páfi kaþólsku kirkjunnar. Ekki er búist við að hinn nýi páfi muni víkja í veigamiklum atriðum frá þeirri stefnu sem forveri hans markaði enda er hann bæði roskinn og íhaldssamur. Svartur reykur steig tvívegis upp um skorstein Sixtínsku kapellunnar í gær og því bjuggust fáir við að kardinálarnir 115 næðu samkomulagi svo fljótt sem raun bar vitni. Þegar hvíti reykurinn sást og kirkjuklukkurnar á Péturstorginu glumdu um sexleytið að staðartíma varð hins vegar ljóst að nýr páfi hefði verið valinn. Tugþúsundir manna sem staddar voru á torginu fögnuðu ákaft og víða um heim glöddust kaþólikkar. Skömmu eftir að chileskur kardináli hafði flutt lýðnum orðin "habemus papam", eða "við höfum eignast páfa", kom Ratzinger sjálfur út á svalir Péturskirkjunnar undir nafninu Benedikt XVI. Hann lýsti sjálfum sér sem einföldum, auðmjúkum verkamanni í víngarði Drottins en söng svo bæn. Kaþólikkar á Íslandi fögnuðu kjöri Ratzingers í gær og sagðist séra Jakob Rolland, prestur í kaþólska söfnuðinum í Reykjavík, vera afar ánægður með niðurstöðu kardinálanna. Jakob efast þó um að Benedikt XVI láti mikið að sér kveða á páfastóli. "Það fyrsta sem hann gerði var að tala um Jóhannes Pál hinn mikla þannig að hann vill vera í skugga hans og halda áfram á sömu braut." Kjör Ratzingers kom Karli Sigurbjörnssyni, biskupi Íslands, ekki mjög á óvart. Hann reiknar með að Benedikt XVI verði íhaldssamur páfi og muni ekki færa kirkjudeildir heimsins nær hverri annarri. "Það sem hefur borið vitni um afturhald og afturför í samkirkjulegu starfi og jafnvel kólnun á milli kirkjudeildanna hefur verið skrifað á hans reikning."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×