Viðskipti innlent

Straumur vonsvikinn með sölu

Íslandsbanki seldi í dag tvo þriðju hluta í Sjóvá sem bankinn keypti fyrir einu og háflu ári. Kaupendur eru börn Werners Rassmussens. Straumur fjárfestingarbanki lýsir vonbrigðum með hvernig Íslandsbanki stóð að sölunni. Kaupverðið var 17,5 milljarðar króna. Það var eignarhaldsfélagið Þáttur ehf. sem keypti 66,6 prósent í Sjóvá en félagið er í eigu fjárfestingafélagsins Milestone ehf. sem er í eigu barna Werners Rassmussens lyfsala. Karl Wernersson segir að félagið hafi staðið í fjárfestingum í nokkurn tíma og náð ágætum árangri í fjármálageiranum. Kaupin á Sjóvá séu eðlilegt framhald á því enda telji félagið að fjármála- og tryggingageirinn sé mjög áhugaverð starfsgrein. Íslandsbanki hagnaðist um 3,4 milljarða króna á sölunni og segir Bjarni Ármannsson bankastjóri að um góð viðskipti sé að ræða. Með sölunni sé Íslandsbanki að losa um heilmikið af eigið fé auk þess sem hagnaður bankans sé allgóður. Markmiðin með því að losa um eigið fé sé að geta beint því í frekari vöxt, sérstaklega utan Íslands með viðskiptavinum Íslandsbanka. Á sama tíma sé málum hagað þannig að Íslandsbanki geti áfram boðið banka- og vátryggingaþjónustu í einum pakka í útbúum og dreifikerfi. Kaupin voru fjármögnum að einum þriðja hluta með eigin fé Þáttar og tveimur þriðju með lánsfé, meðal annars frá seljandanum Íslandsbanka. Straumur fjárfestingarbanki, sem stærsti hluthafi Íslandsbanka, lýsti í kvöld vonbrigðum hvernig bankinn stóð að sölunni á einni stærstu eign sinni. Kaupandinn sé bæði stjórnarmaður í bankanum og annar stærsti hluthafi hans. Straumur hafði tilkynnt áhuga á að kaupa Sjóvá og lítur svo á að bankinn hafi mismunað hluthöfum sínum og ekki keppt að því að fá sem hæst verð fyrir eignina. Auk þess eigi salan sér stað rétt fyrir birtingu uppgjörs Íslandsbanka fyrir fyrstu 3 mánuði ársins, en Karl Wernerson sé frumherji í bankanum. Straumur mun athuga réttarstöðu sína.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×