Erlent

Jólagjöfin í ár: Sex milljóna króna sími

Ertu í vanda með hvað þú vilt gefa ástinni í jólagjöf? Hvað með farsíma sem kostar litlar sex milljónir króna. Það er meðal þess sem rússneskir auðkýfingar geta lagt peninginn sinn í fyrir þessi jólin.

Hver kannast ekki við að verða leiður á símanum sem eitt sinn var svo fínn en annar hver maður er nú kominn með. Nú er lausnin fundin, í það minnsta fyrir rússneska milljarðamæringa því þar er farið að bjóða upp á síma sem er ekki á færi hvers sem er. Nýjasta æðið meðal hinna ríku eru símar sem sýna svo ekki verður um villst að eigandinn veður í peningum. Símar úr hvítagulli, símar úr platínum og símar þaktir demöntum er það sem eitt rússneskt fyrirtæki býður viðskiptavinum sínum. Og fyrir þá sem hafa áhuga má taka fram að símana er hægt að fá á verði frá fjögur hundruð þúsund krónum upp í sex milljónir króna.

Þetta snýst þó ekki bara um útlitið heldur líka betri þjónustu og með því að ýta á einn hnapp opnast ótal möguleikar. Svo segir í það minnsta George Mateez, talsmaður fyrirtækisins sem selur símana. Hann segir símann geta hjálpað fólki að fá miða í leikhús, borð á góðu leikhúsi og ná í leigubíl svo fátt eitt sé nefnt. Þannig sé síminn í raun nokkurs konar ritari eigandans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×