Erlent

Skammarlegt hversu lítil hjálp hefur borist til Pakistans

Tvö af minnstu fórnarlömbum skjálftans sem reið yfir Kasmír í byrjun október.
Tvö af minnstu fórnarlömbum skjálftans sem reið yfir Kasmír í byrjun október. MYND/AP

Minna en helmingur þess fjár sem þörf er á í Kasmír hefur skilað sér. Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna segir skammarlegt hversu lítil hjálp hafi borist og óttast að tugþúsundir farist í vetrarkuldanum á næstu vikum.

Talsmenn hjálparstofnana í Pakistan ítrekuðu í gær nauðsyn þess að gripið yrði til aðgerða þegar í stað. Minna en helmingur þess fjár sem þörf er á í Kasmír hefur borist og segja hjálparstarfsmenn í landinu að stórhætta sé á því að tugþúsundir farist nú þegar vetur er genginn í garð. Talið er að allt að þrjár milljónir manna hafi misst heimili sín í jarðskjálftanum sem gekk yfir þann áttunda október síðastliðinn, en nærri níutíu þúsund manns fórust þá.

Það þykir lán í óláni að veturinn hefur verið óvenju mildur það sem af er og næstu daga er einnig spáð meinlitlu veðri. Þó geti farið að kólna hratt og fyrir það sé fólk upp til fjalla síður en svo reiðubúið. Sameinuðu þjóðirnar segja að miklar líkur séu á að jafn margir og jafnvel fleiri farist en í jarðskjálftanum sjálfum. Mun betur gekk að fá hjálp eftir flóðbylgjurnar í Asíu á annan dag jóla í fyrra en nú og er ástæðan talin vera sú að þá létust hundruð Evrópubúa, þar á meðal um 500 Svíar, og varð samkenndin því mun meiri en hún er nú.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×