Erlent

Fjölmennt lögreglulið stöðvar alla bíla

Lögreglumenn stöðva bíl á leið inn í Cronulla.
Lögreglumenn stöðva bíl á leið inn í Cronulla. MYND/AP

Um 1.500 lögreglumenn vakta götur Cronulla hverfis í Sidney í Ástralíu og reyna þannig að koma í veg fyrir að kynþáttaóeirðir síðustu helgar endurtaki sig.

Mikill viðbúnaður er í Cronulla hverfi í Sidney í Ástralíu þar sem fimmþúsund hvít ungmenni gengu berserksgang í síðustu viku, réðust á þá sem virtust af arabískum uppruna og slógust við lögreglu. Fjölmennt lögreglulið vaktar nú götur hverfisins og allar aðkomuleiðir til að koma í veg fyrir áflog.

Lögregla stöðvar allar bifreiðir á leið inn í hverfið og meinar þeim sem ekki búa í hverfinu og þykja ekki hafa fullgilda ástæðu til að vera þar um inngöngu. Síðustu nótt fundu lögreglumenn sveðjur og hnífa í skotti bifreiðar sem sautján ára piltur ók.

Íbúar og stjórnmálamenn eru margir hverjir afar ósáttir við óeirðirnar um síðustu helgi og ástandið í hverfinu sínu. Þannig sagði ein kona að hún byggi vissulega í þessum rasistabæ þegar lögregla spurði hana hvort hún væri íbúi í Cronulla.

"Þessir glæpamenn hafa í raun og veru lýst stríði á hendur okkur," sagði Morris Iemma, fylkisstjóri í Nýja Suður Wales, og var allt annað en ánægður.

Vinsælar baðstrendur eru við Cronulla hverfið. Þar eru alla jafna fleiri þúsund manns um helgar. Í dag voru þar innan við hundrað manns að synda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×