Erlent

Kjörsókn góð í Írak

Kjörsókn hefur verið góð í þingkosningunum sem fram fara í Írak í dag. Súnní múslimar hafa lofað að gera ekki árásir á kjörstaði en sprengja sprakk þó við kjörstað í borginni Mosul í dag og varð einum að bana.

Um 150 þúsund íraskir her- og lögreglumenn eru við öryggisgæslu við kjörstaði í Írak. Þrátt fyrir loforð súnní múslima um að sprengja ekki á kjörstöðum var ein sprengja sprengd í borginni Mosul sem varð einum að bana. Um 15 milljónir Íraka eru á kjörskrá en í framboði eru 7.655 menn sem vonast eftir að fá þau 275 þingsæti sem í boði eru. Kjörtímabilið er fjögur ár og er búist við að fyrstu tölur berist fyrir kvöldið. Endanlegrar niðurstöðu er þó ekki að vænta fyrr en eftir nokkra daga eða í versta falli eftir nokkrar vikur. Vonast er til að þingkosningar muni efla lýðræðisþróun í landinu og horfa bandarískir hermenn til þess að þeir geti senn hafið undirbúning á því að snúa aftur til síns heima en yfir 2200 bandarískir hermenn hafa fallið í landinu á tveimur tveimur árum sem herinn hefur verið í landinu. George Bush, Bandaríkjaforseti, viðurkenndi í ræðu sem hann hélt í gær að stærstur hluti upplýsinga, sem bandaríska leyniþjónustan aflaði um gereyðingarvopn í Írak hafi verið rangur. Bush ítrekaði þó að innrásin í Írak hafi verið réttlætanleg. Hann sagði heiminn vera mun öruggari eftir að Saddam Hussein var handtekinn og að baráttan gegn hryðjuverkamönnum hafi verið og sé enn nauðsynleg. Bush sagðist bera ábyrgð á þeirri ákvörðun að farið hafi verið inn í Írak og að hann myndi reyna að bæta fyrir þau mistök sem hann hafi gert með því að endurskipuleggja leyniþjónustu Bandaríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×