Erlent

400 þúsund hermenn á götum úti

Nærri fjögur hundruð þúsund manna lið lögreglu og hers verður til taks í Írak á morgun, þegar kosið verður til þings í landinu í fyrsta sinn síðan Saddam Hússein var steypt af stóli. Landamæralögreglan í Írak lagði í gær hald á fimm þúsund falsaða kosningaseðla sem reynt var að flytja til landsins í vöruflutningabíl frá Íran.

Það hefur verið hljóðlátt á götum höfuðborgarinnar Baghdad í morgun. Fyrir utan einstaka sírenuvæl og byssugelt ríkir þögnin ein.

Landamærum og flugvöllum í landinu hefur verið lokað og útgöngubann hefur verið í gildi í höfuðborginni í dag.

Þegar er búið að snarherða öryggisgæslu um allt land fyrir kosningarnar, en enn sem komið er hefur róstur í aðdraganda þeirra verið minni en búist var við. Þó létust tveir lögreglumenn í morgun, þegar bílsprengja sprakk í borginni Mósúl og uppreisnarmenn skutu á fjóra kjörstaði í borginni Fallujah , en engan sakaði.

Á morgun verða tvö hundruð tuttugu og fimm þúsund írakskir lögreglu- og hermenn á vakt og eiga þeir að sjá til þess að íbúar landsins geti kosið án þess að eiga á hættu að verða fyrir árásum uppreisnarmanna. Meira en hundrað og fimmtíu þúsund bandarískir hermenn munu aðstoða þá við verkið. Þetta er einhver víðtækasta öryggisgæsla sem sögur fara af.

Dagblaðið New York Times greinir frá því í dag að írakska lögreglan hafi lagt hald á fimmtán þúsund falsaða kjörseðla við landamæri Írans. Seðlarnir voru í flutningabíl og búið var að fylla flesta þeirra út. Bílstjórinn viðurkenndi við yfirheyrslur að minnst þrír aðrir flutningabílar hefðu komist yfir landamærin með álíka magn af fölsuðum seðlum. Íranar hafa legið undir ámæli fyrir að reyna að hafa áhrif á úrslit kosninganna í Írak og ljóst er að þessi uppákoma mun ekki draga úr þeim ásökunum.

Fimmtán milljónir Íraka eru á kjörskrá og stjórnvöld vonast til að kjörsókn verði góð. Einkum eru vonir bundnar við að súnnítar flykkist á kjörstaði, en þeir sniðgengu að mestu kosningar um stjórnarskrá landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×