Erlent

Eldur kominn upp að nýju

Eldur er að nýju kominn upp í bensínbirgðarstöðinni í Buncefield í Bretlandi. Aukin loftmengun er nú í suðurhluta Bretlands vegna sprengingarinnar um helgina og hefur reykurinn náð alla leið til Spánar.

Breska blaðið The Evening Standard segir að sérfræðingar sem fylgjast með mengun í Lundúnum hafi fundið fyrstu ummerki um aukna loftmengun í miðborginni í kjölfar sprengingarinnar. Ólíklegt er þó talið að mjög skaðleg efni hafi borist í andrúmsloftið. Slökkviliðsmönnum tókst í gærkvöld að slökkva elda í öllum 20 eldsneytisgeymunum en kveiknað hefur í á nýjan leik. Slökkviliðsmenn segja þó að nýi eldurinn sé fyllilega undir þeirra stjórn og verður hann látinn brenna út því ef eldurinn er slökktur munu eldfimar bensíngufurnar umlykja nágrennið. En talið er líklegt að slíkur leki hafi verið ástæðan fyrir því að það kviknaði upphaflega í birgðastöðinni á sunnudag. Fólk sem býr nálægt birgðastöðinni hefur verið hleypt til heimila sinna á ný. Lögreglan telur að of snemmt sé að ákveða hvað olli sprengingunni. Hún telur þó víst að um slys hafi verið að ræða en ekki hryðjuverk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×