Erlent

Samstarfið gengur illa

Tilraunir til að hjálpa fátækustu ríkjum heims fara líklega út um þúfur, sagði Peter Mandelson, viðskiptastjóri Evrópusambandsins sem sat fund alþjóðaviðskiptastofnunarinnar í Hong Kong í morgun. Hann sagði litlar líkur á að niðustaða í málinu fengist í bili.

Evrópusambandið, Bandaríkin og Japan hafa deilt mikið á fundi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar í Hong Kong í morgun um hvernig best skuli standa að málum fátækustu ríkja heimsins. Evrópusambandið er andvígt því að opna markaði sína fyrir innflutningi á landbúnaðarvörum og Bandaríkjamenn og Japanar eru tregir til að samþykkja kvótalausan og tollfrjálsan aðgang fátækustu ríkjanna að mörkuðum sínum. Stjórnmálaskýrendur segja því litlar líkur á að samkomulag um málið náist á fundinum þó allir séu sammála um að bæta þurfi stöðu fátækustu ríkjanna. Fulltrúi Bandaríkjamanna sagði á fundinum í morgun, að ef ekki næðist árangur í viðræðum um umbætur í alþjóðaviðskiptum kynni það að leiða til aukinnar verndarstefnu, sem myndi draga úr hagvexti og bitna mest á hinum fátækustu. Hundruð andstæðinga alþjóðvæðingar komu saman í Hong Kong til að mótmæla fundinum. Mótmælin hafa hingað til farið að mestu friðsamlega fram en yfirvöld búast allt eins við óeirðum seinna í dag og í nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×