Innlent

Deildar meiningar um samninga

Formenn aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins eru mragir hverjir ósáttir við samninga sem forystumenn sambandsins lögðu blessun sína yfir og voru undirritaðir á þriðjudag. Formaður Verkalýðsfélags Húsavíkur segir það með ólíkindum að forystumenn í stéttarfélögum skuli hafa samþykkt þá.

Formenn aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins komu saman á fundi í gær til að ræða nýendurnýjaðan kjarasamning. Skiptar skoðanir voru um gæði samningsins. Þeir sem gagnrýna hann fagna hlut ríkisins í þeim en segja atvinnurekendur hafa sloppið vel. Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, gagnrýndi samninginn harkalega og sakað menn um að fara fram á minni hækkun í samningunum nú en þegar samið var til dæmis við sveitarfélögin. Aðalsteinn Baldursson, formaður Verkalýðsfélags Húsavíkur var honum sammála.

Aðalsteinn segir það með hreinum ólíkindum að forystumenn stéttarfélaga skuli hafa lagt blessun sína yfir samninginn. Sú 0,65% hækkun sem í honum felst er sýnd veiði en ekki gefin að hans mati enda á hún að endurskoðast eftir ár. Margt bendi til að þá verði verðbólga í hærra lagi og því dugi hún skammt.

Kristján Gunnarsson, formaður Starfsgreinasambandsins, er þessu ósammála. Hann segir samningana nú góða, þó hann segist skilja þá sem gagnrýni þá. Hann segir menn þó verða að taka með í reikninginn að heildarendurskoðun standi nú yfir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×