Innlent

Blóðbankinn í of smáu húsnæði

Starfsmenn Blóðbankans þurfa að sýna mikla útsjónarsemi við störf sín og jafnvel að skáskjóta sér, því húsnæði bankans er fyrir löngu orðið allt of lítið. Tillögur að viðbyggingu liggja fyrir, en ákvörðunar stjórnvalda er beðið.

Blóðbankinn er búinn að vera í núverandi húsnæði síðan 1953, en á þeim tíma hefur blóðgjöfum hins vegar fjölgað verulega. Það hefur komið fyrir að allt að 160 blóðgjafar komi einn og sama daginn í bankann, þegar mikið liggur við. Starfsaðstaðan er þannig að margir þurfa að deila með sér litlum skrifstofum og komi til þess að blóðgjafa líði illa eftir blóðgjöf, er ekki hægt að leyfa honum að liggja í ró og næði, heldur verður að fara með hann inn á kaffistofu.

Rannsóknaraðstaða er almennt þannig að þegar búið er að koma tækjum og búnaði fyrir, er varla pláss sum staðar nema fyrir einn starfsmann í einu. Þröngir gangar í kjallara eru líka nýttir og sem dæmi má nefna að þessi stóri tankur, sem stendur í þröngum ganginum, er geymsla fyrir stofnfrumrannsóknir spítalans.

Yfirlæknir blóðbankans segir það gefa augaleið að bankinn þarf viðbyggingu við húsið sem ekki tæki nema ár að reisa og slík áætlun, upp á líklega 300 milljónir, liggi fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×