Innlent

Eiga allt sitt undir blóði úr blóðbankanum

 
 

Nýburarar á vökudeild og fólk sem berst við krabbamein getur átt sitt undir því að nóg sé til af blóði í Blóðbankanum. Bankinn er að hrinda af stað átaki til blóðsöfununar og segir yfirlæknir bankans nauðsynlegt að heilbrigðisyfirvöld tryggi fjármuni til kynningarstarfs.

Blóðbankinn þarf 70 blóðgjafa á dag til að geta sinnt hlutverki sínu, en um 9000 manns gefa blóð reglulega hér á landi. Þörfin fyrir blóð eykst sífellt og ekki síst með hækkandi meðalaldri þjóðarinnar, því fólk yfir 65 ára aldri þarf einna helst á blóðgjöf að halda, ekki síst í tengslum við liðskiptaaðgerðir, hjartaaðgerðir og krabbameinsaðgerðir svo eitthvað sé nefnt. Og það eru ekki bara eldri Íslendingar, því þeir yngstu, nýburar á vökudeild, svo dæmi sé tekið, geta líka átt allt sitt undir því að blóð sé til. Blóðbankinn er að hefja mikið kynningar- og söfnunarátak í samvinnu við Ogvodafone, þar sem lýst er eftir hetjum, en blóðgjafar eru hetjur í augum starfsfólks Blóðbankans.

Sveinn Guðmundsson yfirlæknir segir að stjórnvöld eigi að tryggja kynningarstarf, sem þau gera ekki í dag. Heilbrigðisyfirvöld verji engri eyrnamerktri upphæð til þessa, sem sé umhugsunarefni fyrir alla. Það sé ekki hægt að hringja í skyndi til Evrópu til að biðja um blóð. Sveinn segir að Blóðbankinn þurfi skilning yfirvalda á þessari staðreynd.

Sveinn segir framlag vinnuveitenda sem sýna skilning á nauðsyn blóðgjafa, vera ómetanlegt fyrir þjóðina. Hann segir að heilbrigðisyfirvöld þurfi að vanda sig betur við fjárlagagerðina, því blóðgjafaþjónustan hafi len gi verið utan kastljóssins. Sveinn segir að hægt sé að gera miklu betur og hann hvetur heilbrigðisyfirvöld til þess.

 



Fleiri fréttir

Sjá meira


×