Innlent

Ekkert útboð

 
 
 

Byggingaverktakar undrast að ein verðmætasta lóð Reykjavíkur skuli ekki boðin út. Borgin hefur hafið samningaviðræður við dótturfélag Íslandsbanka um lóð Strætós á Kirkjusandi.

Íslandsbanki er með höfuðstöðvar sínar á Kirkjusandi og nú girnist bankinn lóð Strætó við hliðina. Dótturfélag bankans, Fasteignafélagið Klasi, sendi borgarstjóra formlegt erindi í síðasta mánuði þar sem óskað var eftir viðræðum fyrir hönd bankans um kaup á lóð Strætó. Á fundi borgarráðs í byrjun þessa mánaðar var erindinu vísað til borgarstjóra og samkvæmt upplýsingum Eiríks Hjálmarssonar, aðstoðarmanns borgarstjóra, eru viðræður hafnar. Íslandsbanki segist vilja fá lóðina til þar sem bankinn og félög tengd honum hafi áhuga á að vaxa og dafna á svæðinu og svæðið henti vel undir starfsemi bankans.

Aðrir aðilar á bygginga- og fasteignamarkaði virðast hins vegar lítt hrifnir og hafa í samtölum við Stöð 2 undrast að borgin stefni að því að afhenda svo dýrmæta lóð án útboðs. Menn fengust þó ekki í dag til að tjá sig opinberlega undir nafni.

Byggingarfélagið Gylfi og Gunnar hefur með formlegum hætti blandað sér inn í málið. Með bréfi sem kynnt var borgarráði síðastliðinn fimmtudag óskar félagið eftir að gengið verði hið fyrsta til viðræðna við það um uppbyggingu á lóðinni i kjölfar flutnings á starfsemi, sem ætla megi að sé á næsta leiti, eins og segir í bréfi Gylfa og Gunnars. Verðmæti lóðarinnar á markaði ræðst nokkuð af því hversu marga fermetra húsnæðis verði leyft að byggja á henni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×