Erlent

Hægriflokkar sigra í Póllandi

Fyrstu tölur í þingkosningunum sem fram fóru í Póllandi í gær bentu til að spár gengju eftir um afgerandi sigur tveggja hægriflokka, sem hafa boðað stjórnarsamstarf. Vinstriflokkarnir, sem sigruðu stórt í síðustu þingkosningum fyrir fjórum árum, biðu afhroð. Samkvæmt útgönguspá pólska ríkissjónvarpsins fékk íhaldsflokkurinn Lög og réttlæti 27,6 prósent atkvæða en flokkur frjálshyggjumanna, Borgaravettvangur, fékk 24,1 prósent. Fylgi Lýðræðislega vinstribandalagsins, arftaka pólska kommúnistaflokksins sem fékk um 41 prósent atkvæða í kosningunum fyrir fjórum árum, hrapaði niður í rúm ellefu prósent nú, samkvæmt útgönguspánni. Kjörsókn var lítil eins og reynar í flestum kosningum sem fram hafa farið í Póllandi frá því kommúnisminn féll. Úrslitin sýna afgerandi vilja pólskra kjósenda til stjórnarskipta. Báðir hægriflokkarnir eiga rætur í Samstöðu, verkalýðshreyfingunni sem gegndi burðarhlutverki í að steypa kommúnistastjórninni á níunda áratugnum. En líkt og þýskir kjósendur gerðu í þingkosningunum þar í landi fyrir viku heyktust pólskir kjósendur á því að veita þeim sem lengst vildu ganga í efnahagsumbótum umboð til að hrinda þeim í framkvæmd, með því að veita íhaldsflokknum forskot á frjálshyggjuflokkinn, en í skoðanakönnunum höfðu hlutföllin verið alveg á hinn veginn. Laga- og regluflokkurinn leggur meiri áherslu á að standa vörð um velferðarkerfið, þrátt fyrir að boða efnahagsumbætur með minni ríkisafskiptum, en í landi þar sem atvinnuleysi er samkvæmt opinberum tölum tæp átján prósent eru margir áhyggjufullir yfir því hvernig sparnaðaraðgerðir í ríkisrekstrinum muni snerta þá sjálfa. Samkvæmt útgönguspánum var gert ráð fyrir að hægriflokkarnir fengju 303 af 460 þingsætum. Það er öruggur meirihluti, en fjórum þingsætum undir þeim tveimur þriðju þingsæta sem þeir þyrftu að ráða yfir til að geta komið stjórnarskrárbreytingum í gegn. Miðað við að þessi úrslit gengju eftir var líklegast að leiðtogi Laga og réttlætis, Jaroslaw Kaczinsky, yrði forsætisráðherra. En hann hefur sagt að hann myndi ekki gefa kost á sér í embættið ef svo skyldi fara að eineggja tvíburabróðir hans, Lech Kaczynski, yrði kjörinn forseti lýðveldisins. Forsetakosningar fara fram í október og Kaczynski er sá frambjóðandi sem mests fylgis nýtur samkvæmd skoðanakönnunum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×