Sport

Sigurvegarinn í Draumaliðsleiknum

Í gær voru sigurvegaranum í Draumaliðsleik Vísis í Landsbankadeild karla afhent verðlaun fyrir afrakstur sumarsins, en það var Þór Sigmundsson frá Selfossi sem varð hlutskarpastur með lið sitt Men in black. Verðlaunin voru veitt við formlega athöfn í útibúi Landsbankans í Austurstræti. Fyrir sigurinn í Draumaliðsleiknum hlaut Þór ferð fyrir tvo til Englands, áritaða treyju frá liði sínu Fram og glæsilegt gjafabréf frá Landsbankanum. "Ég var búinn að fylgjast nokkuð vel með í sumar frá því að ég heyrði af þessum leik fyrst í vor og ákvað að taka þátt, en í rauninni þurfti ég ekkert að liggja neitt rosalega mikið yfir þessu til að ná þessum árangri," sagði Þór, sem aðspurður sagði að Auðun Helgason hefði reynst sér einstaklega vel í sumar til að krækja í stig í leiknum. "Hann er búinn að vera frábær í sumar og ég var yfirleitt með hann í liðinu mínu. Ég er auðvitað gallharður Framari, en ég gat ekki alltaf látið hjartað ráða þegar kom að því að velja í liðið, enda gekk ekki vel hjá Fram í sumar. Svo var ég oft með Tryggva Guðmundsson í liðinu mínu og til dæmis í bæði skiptin þegar hann skoraði þrennu, þannig að hann skilaði mér mörgum stigum. Það sem kannski stendur dálítið uppúr var hvað ég var heppinn með gulu spjöldin, því þau draga svo mikið af mönnum í þessu," sagði Þór, sem var hæst ánægður með sigurinn í leiknum og er ákveðinn í að skella sér á völlinn fyrir sigurlaunin. "Ég held með Manchester United á Englandi og hef nú reyndar aldrei séð þá spila á Old Trafford, þannig að ég býst við að bjóða konunni með mér til Manchester fyrir þennan vinning," sagði Þór ánægður í samtali við Vísi í gær.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×