Innlent

Ólína klagar Finnboga

Ólína Þorvarðardóttir hefur farið fram á að útvarpsráð fjalli um fréttaflutning Finnboga Hermannssonar, forstöðumanns Svæðisútvarps Vestfjarða, um málefni Menntaskólans á Ísafirði. Í bréfi sínu til útvarpsráðs segir Ólína að Finnbogi hafi "ítrekað farið út fyrir mörk hlutleysis og óhlutdrægni í málflutningi sínum sem oftar en ekki hefur verið beint gegn skólameistara Menntaskólans á Ísafirði. Hefur þetta verið gert án þess að leitað hafi verið réttra upplýsinga hjá skólanum, mál borin undir skólameistara eða honum gefinn kostur á að tjá sig um það sem fram hefur komið um embættisverk hans eða önnur málefni skólans. Hefur umfjöllun fréttamannsins á köflum verið bæði persónuleg og ærumeiðandi, auk þess að hafa takmarkað upplýsingagildi." Þá segir Ólína að Finnbogi hafi "fyrirgert öllu trausti skólans til að upplýsa hlustendur á málefnalegan hátt um embættisfærslu skólameistara eða annað sem skólann varðar". Með bréfi Ólínu til útvarpsráðs fylgir samantekt Björns Jóhannessonar, lögfræðings Menntaskólans á Ísafirði í máli sem Ingibjörg Ingadóttir, enskukennari við skólann, höfðaði gegn skólanum. Í samantektinni kemur fram hvað í umfjöllun Svæðisútvarps Vestfjarða teljist hlutdrægt og er nefnd umfjöllun um dómsátt í máli Ingibjargar gegn menntaskólanum, umfjöllun um auglýsingar á lausum kennarastöðum við menntaskólann og umfjöllun um ráðningu í stöðu verkefnastjóra forvarna- og félagsmála við menntaskólann. "Þegar ég fjallaði um dómsmálin byggði ég fréttaflutninginn á gögnum; eðli málsins samkvæmt. Eins leitaði ég eftir sjónarmiðum hennar meðan hún vildi eitthvað við okkur tala," segir Finnbogi Hermannsson, sem vísar ásökunum Ólínu á bug. "Annars er þetta ekkert nýtt, hún hefur hótað mér útvarpsráði næstum því eftir hverja frétt og mér er kunnugt um það að hún hafi hótað umsjónarmanni Kastljóss líka, svo hún hótar í allar áttir og það var nú kominn tími til að maður væri klagaður fyrir útvarpsráði; sextugur maðurinn og búinn að vinna við þetta í tæp tuttugu ár," segir Finnbogi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×