Erlent

Vilja yfirráð yfir landamærum

Síðustu ísraelsku hermennirnir yfirgáfu Gasaströndina í morgun. Palestínumenn fagna þessum áfanga mjög en krefjast einnig yfirráða yfir landamærum og lofthelgi. Það var nokkuð tilfinningaþrungin stund þegar síðasta bifreiðin frá ísraelska hernum flutti síðustu hermennina frá Gasaströndinni nú snemma í morgun. Ísrael hernam svæðið árið 1967 og hafði byggt upp tugi landnemabyggða á þeim tæpu fjörutíu árin sem liðin eru síðan. Þær hafa verið rýmdar og nú þegar herinn er farinn hafa Palastínumenn tekið við yfirráðum. Mikill fögnuður braust út á meðal þeirra og streymdu Palestínumenn inn í tómar landnemabyggðirnar í morgun, kveiktu í sýnagógum og brutu og brömluðu það sem þar var að finna. Upphaflega ætluðu palestínsk yfirvöld að loka aðgangi að landnemabyggðunum fyrrverandi en það kom fljótlega í ljós að öryggissveitir heimastjórnarinnar áttu ekki nokkurn möguleika á að halda fólki í skefjum. Skiptar skoðanir eru í Ísrael um ágæti þess að láta Palestínumönnum Gasaströndina eftir án þess að krefjast einhvers í staðinn. Flestir eru þó sammála um að nú reyni á heimastjórnina, þetta muni sýna hvort Palestínumenn séu færir um að stofna eigið ríki og stjórna því. Mahmoud Abbas, forseti heimastjórnarinnar, fagnaði áfanganum en benti á að yfirráð Palestínumanna yfir svæðinu væru í raun ekki alger fyrr en þeir réðu einnig lofthelgi og landamærum. Annars gæti Gasa orðið nokkurs konar fangelsi. Ariel Sharon, forsætisráðherra Ísraels hefur sagt að hann fylgi enn vegvísinum til friðar sem gerir ráð fyrir sjálfstæðu ríki Palestínumanna en engar frekari tilslakanir verði gerðar fyrr en Abbas sýni að hann hafi stjórn á herskáum öfgahópum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×