Erlent

Leggjast gegn stjórnarskránni

Leiðtogar súnní-múslima vara við því að ný stjórnarskrá sem sjía-múslimar og Kúrdar eru að ná samkomulagi um kunni að verða til að staða mála í Írak fari enn versnandi. Þeir hafa biðlað til Bandaríkjastjórnar og Sameinuðu þjóðanna um að koma í veg fyrir að nýja stjórnarskráin verði samþykkt. "Ég er ekki bjartsýnn," sagði Kamal Hamdoun, súnní-múslimi sem tekur þátt í að semja stjórnarskrána, um fund í dag þar sem ræðst hvort samkomulag næst um nýja stjórnarskrá. Upphaflega átti að samþykkja stjórnarskrá fyrir viku svo hægt væri að leggja hana fyrir írösku þjóðina til samþykktar eða synjunar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það mistókst og var fresturinn til að ná samkomulagi framlengdur þar til í dag. Íraskir embættismenn fullyrtu í gær að þeir myndu ná samkomulagi um stjórnarskrá í dag og leggja drögin fyrir íraska stjórnlagaþingið þar sem sjía-múslimar og Kúrdar ráða lögum og lofum. Súnní-múslimar eru mjög ósáttir við að Írak verði sambandsríki. Þeir óttast að þar með verði áhrif þeirra lítil. Súnníar gjalda þess að þeir tóku lítinn þátt í kosningunum í ársbyrjun og eiga því fáa fulltrúa á íraska stjórnlagaþinginu. Þeir gagnrýna jafnframt að þeir hafi aðeins einu sinni fengið að ræða við fulltrúa sjía-múslima og Kúrda um stjórnarskrána síðan frestur til að ná samkomulagi um stjórnarskrá var framlengdur. Þótt súnníar geti ekki komið í veg fyrir samþykkt stjórnarskrár á stjórnlagaþinginu geta þeir komið í veg fyrir samþykkt hennar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Greiði tveir af hverjum þremur kjósendum í þremur af átján héruðum Íraks atkvæði gegn stjórnarskránni öðlast hún ekki gildi. Súnníar eru í meirihluta í fjórum héruðum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×