Erlent

Discovery loks til Flórída

Geimferjan Discovery er nú loks komin aftur til Flórída þaðan sem hún lagði af stað síðla júlímánaðar áleiðis til alþjóðlegu geimstöðvarinnar. Eins og kunnugt er lenti ferjan í allnokkrum vandræðum við flugtak á Canarveral-höfða á Flórída þegar gat kom á einangrun hennar og var jafnvel óttast að hún myndi farast þegar hún kæmi aftur til jarðar. Þær áhyggjur reyndust ástæðulausar en hins vegar þurfti ferjan að lenda í Kaliforníu vegna slæms veður í Flórída á lendingardaginn. Í gær átti svo að fljúga með ferjuna á baki Boeing 747 þotu aftur til Flórída en vélin neyddist til að millilenda í Louisiana, aftur vegna slæms veðurs. Geimferjan kom svo loks til Flórída í dag, yfirmönnum NASA til mikils léttis, en þess má geta að það kostaði stofnunina litar 65 milljónir króna aukalega að lenda Discovery í Kaliforníu í stað Flórída.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×