Erlent

Íbúar í Júrafjöllum grunaðir

Unspunnenstein, sögulegu áttatíu kílóa tákni um einingu svissnesku þjóðarinnar hefur verið stolið. Lögregla telur hóp frönskumælandi íbúa Júrafjalla vera að verki. Unspunnenstein er heljarinnar grjóthnullungur sem hefur verið notaður í tvö hundruð ár til að minna á einingu og samtöðu Svisslendinga. Hann var fyrst notaður á hátíð í Unspunnen árið 1805 til að efla baráttuanda Svisslendinga gegn herjum Napóleons. Keppendur lyfta steininum upp fyrir höfuð og fleygja honum eins langt og þeir megna án þess að stíga fram fyrir planka sem liggur fyrir framan þá. Á hátíðinni, sem haldin hefur verið reglulega allar götur síðan Napóleon ógnaði Sviss, er að auki keppt í alpahornsleik, jóðli og glímu svo eitthvað sé nefnt. Steinninn var til sýnis á hóteli í Interlaken, sem er skammt frá Unspunnen og varð einn starfsmaður hótelsins vitni að því þegar fjórir fílefldir karlmenn ruddust inn á hótelið og tóku steininn traustataki. Þeir skildu eftir múrstein með merki Júrakantónu og er það talið staðfesting á því að þjófarnir komi úr sama hóp og stal steininum árið 1984. Þá var það hópur frönskumælandi íbúa Júrafjalla sem krafðist þess að þeirra svæði yrði hluti af frönskumælandi Júrakantónununni en ekki Bernarkantónu þar sem þýska er ráðandi tungumál. Steinaræningjarnir hafa enn ekki sett fram kröfur um lausnargjald en yfirvöld vonast er til þess að steinninn verði kominn á sinn stað áður en Unspunnen-hátíðin hefst í næsta mánuði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×