Erlent

Þúsundir Breta í mál við Merck

Búast má við því þúsundir Breta leiti réttar síns gagnvart lyfjafyrirtækinu Merck eftir að kviðdómur í Texas úrskurðaði í gær að ekkju Bandaríkjamanns sem lést í kjölfar notkunar á verkjalyfinu Vioxx skyldu dæmdar bætur. Merck er gefið að sök að hafa leynt vitneskju um hættuleg aukaáhrif lyfsins, sem notað var gegn gigt, en rannsóknir sýndu að sá sem tók það í meira en átján mánuði var í tvöfalt meiri hættu að fá hjartaáfall. Lyfið var tekið af markaði í Bretlandi í september í fyrra en samkvæmt fréttavef breska ríkisútvarpsins notuðu um 500 þúsund Bretar lyfið. Talið er að rekja megi tæplega 28 þúsund dauðsföll til notkunar lyfsins frá því að það var leyft árið 1999 og þegar hafa 4200 aðilar kært fyrirtækið vegna lyfsins. Vioxx var tekið af markaði á Íslandi í október í fyrra eftir að þessar hættulegu aukaverkanir komu í ljós en ekki er vitað til þess að nokkur hafi látist vegna þess hér.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×