Sport

Brian er samningsbundinn Keflavík

Brian O'Callaghan, Írinn sem samdi við Keflavík fyrir Íslandsmótið í knattspyrnu í vor, æfir nú með Notts County á Englandi en hefur ekki enn fengið leikheimild, þar sem forráðamenn Keflvíkinga vilja ekki leysa hann undan samningi. Rúnar Arnarson, formaður knattspyrnudeildar Keflavíkur, segir ekki koma til greina að leyfa Brian að fara án greiðslu til Notts County. "Brian er með samning við Keflavík til sextánda október og ef ekki berst neitt tilboð í hann fyrir þann tíma þá ætlum við ekki að leyfa honum að fara." Guðjón Þórðarson, sem er knattspyrnustjóri hjá Notts County og var við stjórnvölinn hjá Keflavík í vetur, segir undarlegt að Brian megi ekki fá að fara. "Brian er ekki að æfa hjá Keflavík. Hann fær engin laun og er auðvitað ekkert að spila með félaginu. Hann býr hér á Englandi og kemur til Notts County ef hann fær leyfi til þess að hafa félagsskipti úr Keflavík. En það er greinilegt að forráðamenn Keflvíkur vilja ekki að hann fari til Notts County." Forsvarsmenn félaganna hafa reynt að leysa samningavandamálið síðustu daga en lítið gengið. Brian mun ekki geta leikið með neinu félagi fyrr en í janúar á næsta ári ef málin leysast ekki fyrir fyrsta september. Ekki er leyfilegt að skipta um félag frá september til fyrsta janúar á Englandi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×