Innlent

Fyrstu kartöflurnar seldust upp

Það verða gómsætar kartöflur á fjölmörgum matardiskum um allt land í kvöld. Fyrsta uppskera sumarsins var tekin upp í Þykkvabænum eldsnemma í morgun. Bændurnir Markús Ársælsson í Hákoti og Guðjón Guðnason í Háarima riðu á vaðið eldsnemma í morgun og tóku upp fyrstu kartöflur sumarsins í Þykkvabæ. Og það var ekkert tvínónað við hlutina að þessu sinni því strax í kvöld hægt að háma í sig nýjar kartöflur með ýsunni eða hverju því sem menn vilja elda á miðvikudagskvöldi. Kartöflurnar fara á markað samdægurs og á disk neytandans í kvöld, segir Guðjón Guðnason kartöflubóndi. Kartöfluræktendur, eins og aðrir höfðu nokkrar áhyggjur í mái og júní, þegar vart kom stakur dropi úr lofti svo vikum skipti. Guðjón segir hina miklu þurrka hins vegar ekki hafa truflað mikið og uppskeran virðist ætla að verða góð. Og fyrsta sendingin frá Þykkvabæ í búðirnar er nokkuð stór. Guðjón sagðist ætla að taka upp sex tonn fyrsta daginn og síðan sex tonn daglega. Neytendur geta því fengið ferskar kartöflur í allt sumar. Kartöflurnar sem fóru í búðirnar í dag seldust upp.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×