Innlent

Áhyggjur af framtíð kjarasamninga

Kerfisbreytingin vegna dísilolíunnar veldur hækkun á vísitölu neysluverðs. Alþýðusamband Íslands segir hækkun vísitölunnar ekki koma á óvart og þar á bæ hafa menn áhyggjur af framtíð kjarasamninga. Um síðustu mánaðamót var þungaskattur af dísilolíu afnuminn og olíugjald lagt á í staðinn. Samkvæmt útreikningum Hagstofunnar hækkaði útsöluverð olíunnar um tæp 106%, sem leiddi til 0,61% hækkunar á vísitölu neysluverðs. Með því að draga þungaskattinn frá, en hann var inni í grunni vísitölunnar, lækkar vísitalan um 0,48% þannig að heildaráhrifin af hækkun olíuverðs- og kerfisbreytingunni eru því 0,13 % hækkun vísitölu neysluverðs. Hagstofan athugaði, að beiðni fréttastofunnar, sérstaklega hvað kerfisbreytingin ein og sér leiddi af sér og var niðurstaðan sú að hún hækkaði vísitölu neysluverðs um 0,06%. Að sögn Stefáns Úlfarssonar, hagfræðings hjá ASÍ, hafa menn þar á bæ ekki skoðað þennan þátt vísitölunnar sérstaklega en hafa hins vegar þungar áhyggjur af hækkun vísitölunnar. Í maí hafi verið gerð kerfisbreyting á útreikningum hennar, sem hafi leitt til lækkunar, en hjá ASÍ hafi menn bent á að það væri einangruð lækkun og það sé að koma á daginn. Verðbólguþrýstingur sé mikill í vísitölunni og menn hafi þungar áhyggjur af framtíð kjarasamninga, en þeir koma til endurskoðunar í nóvember.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×