Innlent

Harður árekstur tveggja vörubíla

Vörubílstjóri var fluttur með sjúkrabifreið til Reykjavíkur eftir mjög harðan árekstur tveggja vörubifreiða og fólksbíls við Vatnshorn í Húnaþingi vestra eftir hádegi í gær. Annar vörubílstjórinn slasaðist minna og tveir sem í fólksbílnum voru sluppu nær ómeiddir. Tildrög slyssins eru talin vera þau að annar vörubílstjórinn hugðist taka fram úr fólksbíl með þeim afleiðingum að hann lenti framan á hinni vörubifreiðinni, sem kom úr gagnstæðri átt. Við áreksturinn rakst vörubifreiðin einnig utan í fólksbílinn. Vörubílarnir eru báðir mikið skemmdir. Slysið átti sér stað í krappri beygju og þar er slæmt útsýni fram á veginn. Óbrotin lína var á miðju vegarins og því óleyfilegt að taka fram úr. Þjóðvegur eitt var lokaður í um tvær klukkustundir meðan unnið var á vettvangi og mynduðust fljótt langar raðir bifreiða í báðar áttir. Að sögn lögreglu gekk fljótt og vel að rýma veginn eftir að hann var opnaður á ný.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×