Innlent

Rændi lyfjum vopnaður hnífi

Ungur maður vopnaður hnífi réðst inn í verslun Lyf og heilsu í Domus Medica við Eiríksgötu í hádeginu í gær. Maðurinn var með klút fyrir andlitinu er hann hljóp inn í búðina, ógnaði starfsfólki með hnífnum og stökk yfir búðarborðið þar sem hann rótaði í lyfjaskúffum. Maðurinn hafði lyf á brott með sér en ekki er talið að um verulegt magn hafi verið að ræða. Maðurinn sem um ræðir er áberandi grannur og fremur lágvaxinn. Hann var klæddur í rauða ullarpeysu, brúnar buxur og hafði veiðihatt á höfði þegar ránið átti sér stað. Lögregla leitaði mannsins í gær en leitin hafði ekki enn borið árangur síðdegis. Tveir menn sem frömdu tvö vopnuð rán í borginni á sunnudag voru enn í haldi lögreglu í gær og því ljóst að þeir voru ekki að verki í Domus Medica.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×