Innlent

Fyrstu hettusóttartilfellin í 6 ár

Hettusótt, sem ekki hefur greinst hér á landi síðan árið 1999, greindist nýverið í þremur einstaklingum. Tveir þeirra sem sýktust höfðu ekki verið bólusettir gegn hettusótt að því er fram kemur í farsóttarfréttum frá Landlæknisembættinu.  Þeir sem sýktust voru á aldrinum 19-25 ára. Tveir höfðu ekki verið bólusettir og ekki er vitað um bólusetningarsögu þess þriðja. Tveir höfðu verið á ferðalagi í Englandi skömmu fyrir veikindin en þar hefur faraldur af völdum hettusóttar brotist út hjá óbólusettum einstaklingum. Hettusótt er veirusýking sem einkennist af hita, slappleika og bólgu í munnvatnskirtli. Sýkingin er oftast hættulaus og gengur yfir á stuttum tíma en getur verið alvarleg, einkum hjá fullorðnum og unglingum. Helstu afleiðingar hettusóttar eru heila- og heilahimnubólga, heyrnaskerðing og ófrjósemi hjá karlmönnum vegna sýkingar í eistum. Bólusetning gegn hettusótt hófst hér á landi árið 1989 og er nú mælt með bólusetningu allra barna við 18 mánaða og 12 ára aldur. Fyrir 1989 var hettusótt landlæg hér á landi en síðan bólusetning hófst hefur dregið mjög úr tíðni sýkingarinnar og ekkert tilfelli hefur greinst síðan 1999 þar til nú. Í farsóttarfréttum er hvatt til þess að fylgja fyrirmælum um bólusetningar vegna hættu á sýkingum í útlöndum, hafi einstaklingar ekki verið bólusettir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×