Innlent

Rændu apótek og pítsustað

"Auðvitað var okkur brugðið enda alveg fáránlegt að ræna pítsustað á þessum tíma," segir Ingólfur Kristinsson, starfsmaður á Domino´s pítsustaðnum í Spönginni í Reykjavík, þar sem vopnaður maður framdi rán í gær. Maður með nælonsokkabuxur yfir höfði sér kom inn á staðinn laust fyrir tvö í gær og ógnaði starfsfólki með hníf sem hann sagðist hafa í vasanum. Að sögn lögreglunnar í Reykjavík náði maðurinn um tíu þúsund krónum en svo fór hann akandi á brott ásamt kollega sínum sem beðið hafði fyrir utan. Um það bil klukkutíma áður höfðu sömu menn farið í lyfjaverslunina Lyf og heilsa á Háaleitisbraut og brotið þar og bramlað í leit af lyfjum sem þeir sóttust eftir. Starfsfólk varð svo skelkað að það flúði og er því óljóst hvað mennirnir tóku með sér af lyfjum. Skömmu eftir ránið á Domino´s barst lögreglu tilkynning frá vegfaranda um ökumann í annarlegu ástandi í Grafarvogi. Lögreglan hafði upp á þeim ökumanni og kom þá í ljós að þar reyndust ræningjarnir á ferð, voru þeir umsvifalaust handteknir. Einnig fann lögreglan hníf í bifreiðinni. Páll Sigurðsson, framkvæmdastjóri Domino´s pizza, segir að starfsfólkinu hafi eðlilega verið brugðið og verði því boðin og hvatt til að þiggja áfallahjálp. "Annars skil ég ekki hvað fólki gengur til með svona löguðu því það er að leggja mikið á sig fyrir lítið," segir Páll. Hann segir að fyrir nokkrum vikum hafi maður rænt einn af pítsusendlum fyrirtækisins og hafi ódæðismaðurinn sá haft tæpar þrjú þúsund krónur upp úr krafsinu. "Öryggisreglur fyrirtækisins eru þannig að aldrei er miklu reiðufé fyrir að fara á þjónustustöðum okkar og svo fer mest af viðskiðtunum fram með kortum þannig að þrjótar eins og þessir bera sjaldnast mikið úr bítum. Svo skil ég ekkert í þessum mönnum því það er örugglega alveg sama á hvaða veitingastað þú kemur um klukkan tvö á sunnudegi; það er örugglega ekki komið mikið í kassann," bætir Páll við.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×