Innlent

Óánægja með stjórnarhætti

"Ég treysti mér einfaldlega ekki lengur til að starfa við núverandi stjórnarhætti hjá félaginu," segir Inga Jóna Þórðardóttir sem gaf skýringu á úrsögn sinni úr stjórn FL-group á hluthafafundi félagsins sem haldinn var á Nordica hótel í gær. Nefndi hún þrjá þætti sem stjórnin þyrfti að lagfæra til að tryggja eðlilega stjórnarhætti. Í fyrsta lagi þykir henni verkaskipting stjórnarformanns og forstjóra félagsins óskýr, í öðru lagi segir hún að tryggja þurfi að meiri háttar fjárfestingar félagsins séu ræddar í stjórn áður en félagið verði skuldbundið viðskiptaaðilum og í þriðja lagi segir hún félagið vanta skýra fjárfestingastefnu þar sem einungis hagsmunir félagsins eru hafðir að leiðarljósi. "Það er nauðsynlegt að viðhalda trausti almennings í félagi sem er á almennum hlutabréfamarkaði og því trausti er viðhaldið með því að virða ákveðnar vinnureglur," segir hún. Hannes Smárason stjórnarformaður sem kjörinn var til áframhaldandi starfa sagði á fundinum að verðmæti hlutabréfa félagsins hefðu tvöfaldast á síðustu 18 mánuðum og að hann myndi nálgast verkefni félagsins með sama hætti og áður.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×