Innlent

Mikilvægasta viðskiptamiðstöðin

Yfir tvö þúsund Íslendingar eru búsettir í London. Þá er talið að annar eins fjöldi íslenskra ferðamanna geti verið staddur í borginni en hún er langmikilvægasta viðskiptamiðstöð Íslendinga erlendis. Í útrás íslenskra fyrirtækja á undanförnum árum hefur London gegnt lykilhlutverki. Öll helstu útrásarfyrirtækin eru þar með starfsemi og dótturfyrirtæki, þeirra á meðal Landsbankinn, KB-banki, Íslandsbanki, Baugur, Bakkavör og Flugleiðir. Sverrir Haukur Gunnlaugsson, sendiherra Íslands í Bretlandi, segir að borgin sé langstærsta viðskiptamiðstöð Íslendinga erlendis. Íslensku fyrirtækin hafa yfirleitt fáa íslenska starfsmenn í borginni, um eða innan við tíu. Flestir eru á vegum Landsbankans en í tilkynningu bankans í dag kom fram að á fimmta tug Íslendinga væru nú á vegum hans í London. Búið var að fá upplýsingar fyrir hádegi um að þeir væru allir óhultir. Fjölmennasti hópur Íslendinga búsettra í borginni eru sennilega námsmenn og fjölskyldur þeirra. Sigurður Arnarson sendiráðsprestur áætlaði í dag að á milli 350 og 400 námsmannafjölskyldur væru í London. Mesta óvissan er þó um fjölda íslenskra ferðamanna. Um 30 bein flug eru í hverri viku milli London og Keflavíkur og hafa menn giskað á að allt að 2000 Íslendingar geti verið í borginni til viðbótar við þá sem þar eru búsettir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×