Innlent

Ekki vitað um afdrif 20 Íslendinga

Ekki er vitað til þess að neinn Íslendingur hafi slasast í árásunum í morgun. Utanríkisráðuneytið setti þegar í morgun upp miðstöð til að miðla upplýsingum um afdrif Íslendinga. Síðdegis hafði ekki tekist að ná sambandi við yfir tuttugu Íslendinga sem staddir eru í London. Sendiherra Íslands í London, Sverrir Haukur Gunnlaugsson, var staddur á Íslandi og fór þegar eftir að fréttist af árásunum í morgun í utanríkisráðuneytið til fundar við Davíð Oddsson utanríkisráðherra, Gunnar Snorra Gunnarsson ráðuneytisstjóra og Illuga Gunnarsson, aðstoðarmann ráðherrans. Davíð var þá að ljúka símtali við Sigurð Arnarson sendiráðsprest í London. Utanríkisráðherrann sagði að verið væri að reyna að fá vitneskju um afdrif allra Íslendinga í London í samráði við sendiráð Íslands í Bretlandi. Sendiherrann hélt út til London síðdegis. Það var hins mikið álag á símkerfi utanríkisráðuneytisins eftir að kynnt var í hádeginu að þar hefði verði opnuð upplýsingamiðstöð. Þar voru um tíma átta manns í að svara símtölum þegar fólk í tugatali hringdi inn til að spyrjast fyrir um afdrif ástvina. Síðdegis hafði ekki tekist að ná sambandi við yfir tuttugu Íslendinga að sögn Illuga Gunnarssonar. Upplýsingaþjónustan verður starfrækt svo lengi sem þurfa þykir. Síminn er 545 9900.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×