Innlent

80% heimila á móti skipulaginu

Hópur íbúa á Álftanesi tók höndum saman nú í vikunni og gekk í hús í bæjarfélaginu til að safna undirskriftum undir áskorun gegn fyrirhuguðu deiliskipulagi sem kynnt hefur verið um miðbæjarsvæðið á Álftanesi. Eina tillagan sem kynnt hefur verið af meirihluta bæjarstjórnar er þematillaga frá arkitektastofunni Batteríinu sem margir íbúar telja vera í andstöðu við ímynd Álftaness sem fámennt, friðsælt og náttúruvænt sveitarfélag. Í tilkynningu sem hópurinn sendir frá sér í dag segir að undirtektir við undirskriftasöfnuninni hafi verið mjög góðar. Af 620 heimilum í bænum voru húsráðendur heima í um 70% tilvika eða á u.þ.b. 430 heimilum. Þar af skrifuðu fulltrúar um 340 heimila undir áskorunina eða um 80% heimila þar sem húsráðendur voru heima. Á um 30% heimila í bænum var enginn viðlátinn þegar söfnunin stóð yfir. Þess er vænst að skipulagsyfirvöld Álftaness taki þessari áskorun og komi þannig til móts við óskir meirihluta íbúanna. Áskorunin til skipulagsyfirvalda Álftaness er svohljóðandi: 1. Við undirritaðir Álftnesingar viljum að efnt verið til arkitektasamkeppni um skipulag miðsvæðisins á Álftanesi 2. Við viljum hafa nokkra kosti til að skoða og fjalla um á sérstöku íbúaþingi. 3. Við erum óánægð með þá tillögu sem kynnt hefur verið, með þjónustugötu umlukta þriggja hæða húsum á báða vegu, sem jafnframt á að vera aðkomuleið að skóla og íþróttahúsi. 4. Við viljum miðsvæði sem fellur að landkostum á Álftanesi og hæfir hugmyndum okkar um „sveit í bæ“.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×