Innlent

Erum með í 14 af 20 verkefnum

Ísland er þátttakandi í 14 af 20 verkefnum sem NORA, Norður Atlantsnefndin, hefur ákveðið að styrkja með fjárveitingu upp á 39,4 milljónir króna. Fjallað var um 40 styrkumsóknir á árfundi nefndarinnar dagana 4. og 5. júní í Nuuk á Grænlandi. Um er að ræða margvísleg samstarfsverkefni á milli Færeyja, Grænlands, Íslands og Noregs. Þórarinn V. Sólmundarson, tengiliður NORA á Íslandi, segir að nú séu í gangi um 40 verkefni sem NORA hefur styrkt. "Áherla á sjávarnytjar hefur verið mikil, en svo hefur ferðaþjonusta verið rík þarna líka," segir hann. Ákvarðanir um styrki NORA eru teknar einu sinni til tvisvar á ári. "Núna er eitthvað af peningum eftir þannig að ég geri ráð fyrir að við auglýsum aftur eftir umsóknum í haust." Hægt er að sækja um styrk til NORA hvenær sem er ársins, en skilyrði er að verkefni feli í sér samstarf að minnsta kosti tveggja landa eða hafi ótvírætt gildi fyrir tvö, eða fleiri lönd. NORA heyrir undir Norrænu ráðherranefndina, en frekari upplýsingar um Norður Atlantsnefndina er að finna á vef Byggðastofnunar, byggdastofnun.is.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×