Innlent

Réttarmeinafræðingur fær styrk

Eva Klonowski, íslenskur réttarmeinafræðingur af pólskum uppruna, hefur fengið tveggja milljóna króna styrk frá ríkisstjórninni vegna starfa sinna í Bosníu. Þar vinnur hún við að bera kennsl á lík fólks sem féll í styrjöldinni á tímabilinu 1992 til 1995. Eva hefur starfað í Bosníu um árabil og í viðtali við Time-tímaritið árið 2003 sagði hún eitt sinn að sennilega væri betra að vinna sem aðstoðarmaður í ilmvatnsbúð en við það að róta í fjöldagröfum. Eva kom til Íslands árið 1981 eftir að hafa ekki getað farið aftur til Póllands úr fríi í Austurríki vegna ástandsins heima fyrir. Hún og eiginmaður hennar skráðu sig sem flóttamenn og var þeim skömmu síðar boðið að setjast að á Íslandi. Eva hefur starfað í Bosníu frá árinu 1996 og hefur enginn réttarmeinafræðingur enst jafn lengi þar. Hún sinnir starfinu af þvílíkri hugsjón að stundum hefur hún starfað launalaust heilu árin og er því vel að styrknum komin.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×