Innlent

Deyja 100 árlega vegna mistaka?

Gera má ráð fyrir að mistök í meðferð sjúklinga hér á landi leiði árlega til um það bil til 130 dauðsfalla og kosti þjóðarbúið um 1,3 milljarða króna. Þá má ætla að um eitt þúsund manns verði fyrir heilsutjóni árlega vegna rangrar meðferðar í heilbrigðiskerfinu. Þessar tölur byggja á sambærilegum tölum frá Noregi þar sem rannsókn við Háskólann í Björgvin sýnir að mistök í heilbrigðiskerfinu kosta um tvö þúsund manns lífið árlega og um fimmtán þúsund manns bíða árlega mikinn skaða vegna rangrar meðhöndlunar lækna. Áætlað er að þetta kosti norska skattgreiðendur nálægt tuttugu milljarða árlega í íslenskum krónum talið. Mistök af því tagi sem hér um ræðir geta verið margs konar, allt frá rangri lyfjagjöf upp í mistök við aðgerðir. Matthías Halldórsson aðstoðarlandlæknir segir engar rannsóknir hafa farið fram á þessu sviði hér á landi enda um umfangsmikla rannsóknarvinnu að ræða. "En það er hins vegar vafalaust hægt að heimfæra þessar tölur frá Noregi upp á Ísland. Heilbrigðiskerfið þar er ekkert frábrugðið okkar og þetta því sambærilegt að mörgu leyti", segir hann. Undir þetta tekur Sigurbjörn Sveinsson formaður Læknafélags Íslands sem segir að samanburður við bandarískar kannanir sýni svipaða niðurstöðu. "Þær tölur sem eru réttar fyrir þessi lönd eru mjög líklega sambærilegar fyrir Ísland", segir hann. Sigurbjörn segir að Læknafélag Íslands hafi beitt sér fyrir umræðu um öryggi í íslensku heilbrigðiskerfi og telji mikilvægt að ráðast í rannsókn á afleiðingum læknamistaka hér á landi. Slík rannsókn þurfi ekki að vera mjög dýr þar sem öll gögn eru til. "Ég held að við hljótum að þurfa að ráðast í svona rannsókn hér fyrr en síðar, við verðum eiginlega að gera það, því þetta er einn af grundvallarþáttum gæðastjórnunar í heilbrigðiskerfinu", segir Sigurbjörn Sveinsson.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×