Innlent

Bjallað eftir bununni

Nú vinna starfsmenn Reykjavíkurborgar að því hörðum höndum að koma fyrir nýjum gosbrunni í tjörninni. Þessi nýji gosbrunnur er þýsk gæðasmíði að sögn Arnar Sigurðssonar staðgengils sviðsstjóra umhverfissviðs. Ekki verður lengur þörf á því að starfsmenn fari út í tjörn til að koma gosbrunninum af stað því þessi nýji gosbrunnur er fjarstýrður og verður kveikt á honum með einni símhringingu úr farsíma. Spurður hvort það verði þá í verkahring borgarstjóra að setja gosbrunninn af stað sagði Örn kankvís að það gæti vel farið svo að hann láti Steinunni hafa númerið. Einnig verður bunan úr þessum brunni mun lægri en hún var í þeim gamla en Örn segir að borgarbúar hafi margir hverjir kvartað yfir því að þeir blotnuðu þegar þeir voru á leið sinni umhverfis tjörnina þar sem úða lagði yfir svæðið. Enn er ekki ljóst hvenær þýski gæðabrunnurinn verði tilbúinn að buna fyrir borgarbúa en að sögn Arnar verður það á allra næstu dögum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×