Innlent

Lífslíkur íslenskra karla batna

Lífslíkur íslenskra karla hafa batnað mun meira en kvenna á síðustu áratugum, en þeir verða nú karla elstir í heiminum. Konurnar eru hins vegar dottnar niður í sjötta sæti. Í nýrri samantekt Hagstofu Íslands á dánartíðni og ævilengd kemur fram að íslenskir karlar mega vænta þess að verða 78,8 ára og konur 82,6 ára. Talsvert hefur dregið saman með kynjunum undanfarna áratugi en fyrir þrjátíu árum var sex ára munur á meðalævilengd karla og kvenna. Þetta er svipuð þróun og í öðrum Evrópulöndum þótt munurinn á kynjunum sé minnstur hér. Lífslíkur íslenskra kvenna voru lengi vel mestar í heimi en þær eru nú komnar niður í sjötta sæti, á eftir meðal annars japönskum, spænskum og frönskum konum. Ekki hefur þó dregið úr lífslíkum íslenskra kvenna, þær hafa aukist jafnt og þétt, heldur hafa þær einfaldlega aukist meira hjá öðrum þjóðum. Japanskar konur verða langelstar en ævilíkur þeirra eru nær 86 ár.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×