Innlent

Fuglar geti borið flensu hingað

Óttast er að farfuglar sem ferðast heimsálfa á milli beri fuglaflensu landa á milli og jafnvel hingað til lands, segir dýralæknir í alifuglasjúkdómum. Í héraði í Vestur-Kína hafa 178 fuglar, villtar gæsir sem sneru frá vetursetu í Indlandi, fundist dauðar af völdum veirunnar, afbrigðinu sem getur borist manna á milli. Þetta vekur óneitanlega upp þá spurningu hvort farfuglar geti verið smitberar og dreift veirunni hingað til lands. Svarið við þeirri spurningu er játandi segir Jarle Reiersen, dýralæknir í alifuglasjúkdómum, og minnir á að fuglaflensa hafi fundist í urtönd í Mývatnssveit árið 1980. Eftir þann tíma er ekkert vitað. Reiersen segir að það séu einfaldlega ekki til rannsóknir þar sem þessi mál hafi verið skoðuð. Fuglaflensa gæti því leynst í fuglum á Íslandi án þess að vitað væri um það. En hverjar yrðu afleiðingarnar ef fuglaflensa bærist í íslenska alifugla? Reiersen segir að samkvæmt þeim varúðarráðstöfunum sem séu inni í áætlunum yfirdýralæknisembættisins sé niðurskurður eina úrræðið sem sé fyrir hendi. Ef fuglaflensan berist inn á stærstu alifuglabúin hérlendis hefði það skelfilegar afleiðingar. Kínversk stjórnvöld hafa flutt meira en þrjár milljónir skammta af bóluefni gegn fuglaflensu til héraðsins í Vestur-Kína en þar á að bólusetja á alla alifugla. Á Íslandi er þó ekki einu sinni vitað hvort sýktir fuglar séu á landinu. Aðspurður hvort Íslendingar hafi sofið á verðinum segir Reiersen að lagt hafi verið til að gerðar yrðu frekari rannsóknir en það skorti fjármagn til þess. Fuglaflensan hefur dregið 54 menn í Asíu til dauða frá því hennar varð vart árið 2003. Sá síðasti lést í Víetnam í dag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×