Innlent

Umferðartafir við Miklubraut

Frá og með deginum í dag verður hægt að aka Laugaveginn endilangan frá gatnamótum Suðurlandsbrautar og alla leið að Bankastræti. Fleiri framkvæmdir setja mark sitt á borgina þar sem í gær var hafist handa við þrengingu Miklubrautar. Af þessum völdum er aðeins ein akrein Miklubrautar í hvora átt opin fyrir umferð og verður svo út mánuðinn. "Það er eins gott fyrir ökumenn að huga að öðrum leiðum svo þeir lendi ekki í þessum tappa," sagði Rúnar Sigurpálsson varðstjóri í umferðardeild lögreglunnar í Reykjavík. Njarðargata verður lokuð í dag frá klukkan níu til þrjú vegna malbikunar. Fljótlega verður Suðurlandsvegur þrengdur við umferðareyjuna við Rauðavatn og má búast við óþægindum af þeim völdum segir umferðarlögreglan. Enn er unnið að nýrri aðstöðu Strætó við lögreglustöðina við Hlemm og er ráðgert að þeim framkvæmdum ljúki 20. júni. Ekki verður þó hægt að keyra niður Hverfisgötuna frá Hlemmi að þeim framkvæmdum loknum segir Höskuldur Tryggvason deildarstjóri umhverfis - og tæknisviðs Reykjavíkurborgar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×