Viðskipti innlent

Lífeyrissjóður sjómanna hæstur

Raunávöxtun lífeyrissjóðanna var annað árið í röð yfir tíu prósent að meðaltali. Þetta kom fram í máli Friðberts Traustasonar á aðalfundi Landssamtaka lífeyrissjóða sem haldinn var í síðustu viku. Friðbert telur að raunávöxtunin hafi verið um 10,5 prósent að meðaltali í fyrra en 11,3 prósent árið áður. Eftir því sem lífeyrissjóðir fjárfesta meira í innlendum hlutabréfum því betri verður ávöxtun þeirra. Úrvalsvísitalan hækkaði um 59 prósent í fyrra og um 56 prósent árið 2003. Lífeyrissjóður sjómanna sýndi besta raunávöxtun af stóru lífeyrissjóðunum á síðasta ári en raunávöxtun hans nam 16,4 prósentum. Hann skilaði einnig bestu ávöxtuninni árið 2003. Árni Guðmundsson, framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs sjómanna, segir að tvennt hafi skipt sköpum um árangur síðasta árs. "Við vorum með hærri ávöxtun af okkar innlenda hlutabréfasafni en úrvalsvísitalan. Einnig skiluðu góðar gengisvarnir þessari góðu ávöxtun en krónan styrktist mjög í lok ársins. Þetta tvennt gaf okkur umfram ávöxtun á við aðra lífeyrissjóði." Árni býst ekki við að sjóðurinn, sem sameinast brátt Lífeyrissjóðnum Framsýn, endurtaki sama leik, enda hafi síðustu tvö ár verið einstök. Heildareignir lífeyrissjóðsins uxu um rúma tólf milljarða. Þorgeir Eyjólfsson, forstjóri Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, er sammála Árna um það að árið 2005 geti orðið hagstætt en varla jafn gott og árin 2003-2004. Heildareignir lífeyrissjóðsins hafa tvöfaldast á fimm árum að því fram kemur á heimasíðu sjóðsins. Samvinnulífeyrissjóðurinn fylgir sjómönnunum fast á hæla en raunávöxtun sjóðsins var yfir 15 prósent á síðasta ári. Lífeyrissjóðurinn Framsýn, sem kemur til með að sameinast Lífeyrissjóði sjómanna þann 1. júlí, kemur svo í þriðja sæti.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×