Innlent

Ljósmynd getur skipt öllu

Ljósmynd getur skilið milli feigs og ófeigs í kínversku viðskiptalífi. Tengsl við háttsetta menn skipta öllu máli. Fjölmenn viðskiptanefnd frá Íslandi er komin til Kína til að kynna sér það hagkerfi sem innan fárra ára verður stærra en nokkuð annað í veröldinni. Eva Bergþóra Guðbergsdóttir, fréttamaður Stöðvar 2 og Bylgjunnar, er í Kína. Zhang Yesui, vararutanríkisráðherra Kína, tók á móti Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, hér í Peking snemma í morgun að íslenskum tíma. Með forsetanum í þessari vikulöngu opinberu heimsókn er fjölmennasta viðskiptasendinefnd sem farið hefur frá Íslandi en hún telur um 180 manns. Þá fylgja einnig um 200 íslenskir ferðalangar sem stukku á tækifærið til að komast í beinu flugi frá Íslandi til Kína en flugið tók um tíu tíma. Átta klukkustunda tímamismunur er á milli Peking og Íslands. Það má segja að allir sem séu eitthvað í íslensku viðskiptalífi séu komnir hingað til Peking, og það er kannski ekkert skrítið því þetta er land tækifæranna. Hér búa 22% af öllum íbúum jarðar í hagkerfi sem er í ótrúlega örum vexti og allt er mögulegt í heimi viðskiptanna, ef rétt er farið að málum. Hér skipta tengslanet miklu máli og geta raunveruleg verðmæti t.a.m. falist í því að eiga mynd af sér eða fulltrúa fyrirtækis síns með forseta Íslands og forseta Kína. Í tengslum við heimsóknina verða m.a. undirritaðir mikilvægir samstarfssamningar á milli íslenskra og kínverskra fyrirtækja og haldin námskeið og ráðstefnur þar sem möguleiki er á tengslamyndunum. Hér eru fulltrúar sjávarútvegsfyrirtækja, banka en tvö ár eru í að bankakerfið verði opnað fyrir erlendum bönkum, ýmis konar verslana- og framleiðslufyrirtækja og svo fulltrúar fyrirtækja í ferðamannageiranum en svo dæmi sé tekið ferðast um 20 milljónir Kínverja árlega til útlanda og vex sú tala um 20% á ári hverju. Á morgun mun forseti Íslands funda með Hu Jintao, forseta Kína, og komast um 50 viðskiptamenn með í heimsóknina. Með forsetanum í þessari heimsókn er Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra og mun hún undirrita viljayfirlýsingar um samstarf í umhverfismálum og jarðskjálftaviðvörunum. Forsetafrúin, Dorrit Mousaeieff, er væntanleg síðar í dag með flugi frá Los Angeles. Spennandi dagskrá er framundan í þessu mikilfenglega landi sem fluttar verða reglulegar fréttir af á næstu dögum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×