Innlent

Fjölmenni í Nauthólsvík í dag

Ylströndin í Nauthólsvík var opnuð í morgun. Fjöldi fólks kom þangað í dag að njóta blíðunnar á þessum fallega hvítasunnudegi. Það má eiginlega segja að sumarið sé komið í höfuðborginni þegar ylströndin opnar. Þótt sumum hafi kannski ekki fundist ástæða til að fara úr úlpunni þá voru flestir aðrir á öðru máli og syntu ýmist í upphituðum sjónum, byggðu hallir, spiluðu fótbolta, hoppuðu í snúsnú eða slöppuðu bara af eins og fara gerir á svona degi. Ylströndin verður opin fram í miðjan september og er aðgangur að öllum herlegheitunum ókeypis. Margir sólþyrstir tóku þó Austurvöllinn fram yfir Nauthólsvíkina og flatmöguðu þar undir vökulu augnaráði Jóns Sigurðssonar en styttan af honum gæti sjálfsagt sagt frá mörgu hefði hún mál. Einhverjir sögðust vera að læra undir próf en viðurkenndu að þessi langþráða sumarbyrjun verkaði heldur letjandi á þá iðju.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×