Innlent

Dreifa skít vegna ölvunarsamkomu

Íbúar við Lyngmóa í Garðabæ hafa gripið til þess ráðs að dreifa skít til þess að fyrirbyggja ölvunarsamkomu ungmenna á túni í nágrenni íbúðarhúsa í kvöld og nótt. Það getur verið erfitt fyrir fólk sem ætlar að hafa það náðugt á föstudagskvöldi að þurfa að þola mikil læti í unglingum sem hópast saman. Þegar íbúar við Lyngmóa fréttu að það ætti að halda útihátíð á túni við götuna í kvöld ákváðu þeir að grípa til sinna eigin ráða og dreifa skít á allt túnið. Að sögn nokkurra íbúa við Lyngmóa sem fréttastofa Stöðvar 2 ræddi við í dag hefur það nokkrum sinnum gerst að ungmenni hafi safnast saman á túninu við blokkirnar og verið þar langt fram eftir nóttu með tilheyrandi hávaða og slæmri umgengni. Á heimasíðunni blog.central/lyngid má sjá hvar hópur ungmenna hafði boðað til skemmtanahalda á túninu við Lyngmóa í kvöld í tilefni af próflokum í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ. Hópur íbúa við götunna greip því til þess ráðs í samstarfi við yfirvöld í Garðabæ að moka skít á grasið svo að ungmennunum yrði erfitt um vik að skemmta sér þar. Ekki liggur enn fyrir hvort hætt verði við samkomuna eða hvort unga fólkið taki bara stígvélin fram og láti sem ekkert hafi í skorist.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×