Innlent

Hundrað manns á Hvannadalshnjúk?

Fyrsta ferðahelgi sumarsins er nú fyrir höndum og var mikil umferð á Vesturlandsvegi seinni partinn dag og voru margir á leið út úr bænum. Margir eru lagðir af stað þangað sem á að njóta helgarinnar. Sumir ferðalanganna ætla sér lengra en aðrir og má þar nefna eitt hundrað manna hóp sem ætlar sér upp Hvannadalshnjúk, hæsta tind Íslands. Ferðin er á vegum Ferðafélagsins og fer fyrir hópnum pólfarinn Haraldur Örn Ólafsson. En hverjir geta farið með í ferð sem þessa? Haraldur segir að allir sem séu í góðu ásigkomulagi, hafi gengið eitthvað og treysti sér í 15 tíma göngu geti farið. Gengið sé 2000 metra upp á við og það sé með því mesta sem menn geri, jafnvel þótt horft sé út fyrir landssteinana. Mikilvægt er að vera með réttan búnaðinn þegar farið er í ferðir upp á jökul en eins er vert er að hafa í huga að ganga rólega til að sprengja sig ekki. En er við því að búast að allir hundrað komist alla leið á toppinn? Haraldur segir að menn séu staðráðnir í að koma öllum á toppinn en hins vegar geti það alltaf gerst, og gert hafi verið ráð fyrir því, að einhverjir þurfi að snúa við. Trúlega verða flestir í sumarbústöðum og er lögreglan á Selfossi og í Borgarnesi við öllu búin og hefur lögreglumönnum verið fjölgað umfram það sem venja er. Á báðum stöðum var búist við mikill umferð seinni partinn í dag og fram á kvöld. Veðurspáin er góð fyrir morgundaginn en búist er við hæglætisveðri um allt land en en annað kvöld gæti verið farið að rigna á Norðaustur- og Austurlandi. Á sunnudag og mánudag fer að kólna með norðlægri átt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×