Innlent

Bónus oftast með lægsta verðið

Bónus var oftast með lægsta verðið á mjólkurvörum og osti, samkvæmt verðkönnun Alþýðusambands Íslands. Verðstríð á matvörumarkaði hefur haft töluverð áhrif á neysluvísitöluna. Könnunin var gerð í verslunum á höfuðborgarsvæðinu í gær. Mikill munur var á hæsta og lægsta verði í nær öllum vörutegundum og sem dæmi má nefna að meira en 100% munur var í 15 tilvikum og yfir 50% í 39 tilvikum en 44 vörutegundir voru kannaðar. Mesti munurinn á hæsta og lægsta verði var á lítranum af léttmjólk. Í Bónus kostaði hann 25 krónur en 90 krónur í 11-11 en það er 260% munur. Af þessum 44 vörutegundum var verðið lægst í Bónus 36 flokkum en næstoftast í Krónunni, eða í sjö tilvikum. Verslanir 10-11 voru hins vegar oftast með hæsta verðið, eða í 26 tilvikum. Samkvæmt nýrri vísitölu neysluverðs sem Hagstofan gaf út í morgun kemur í ljós að vísitalan lækkar í maí frá mánuðinum á undan, eða um 0,54%. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofunni hafði hörð verðsamkeppni á matvörumarkaði þau áhrif að verð á dagvöru lækkaði um 4% en það þýðir 0,65% lækkun á vísitölu. Þessu til viðbótar lækkar eigið húsnæði í vísitölu neysluverð um 1,4%, sem þýðir 0,21% lækkun vísitölunnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×