Innlent

Fasteignasölu lokað

Eftirlitsnefnd Félags fasteignasala er tekin til starfa af fullum krafti. Hún hefur meðal annars lokað einni fasteignasölu tímabundið þar sem enginn löggildur fasteignasali starfaði þar á þeim tíma, að sögn Þorsteins Einarssonar hæstaréttarlögmanns, formanns nefndarinnar. Fasteignasalan var opnuð aftur þegar þau mál voru komin í lag. Þorsteinn vildi ekki gefa upp hvaða fasteignasala hefði átt hlut að máli, enda væru nefndarmenn bundnir ströngum trúnaði. Birgir Birgisson, löggildur fasteignasali Remax í Kópavogi, staðfesti aðspurður að um þá fasteignasölu hefði verið að ræða. "Það var ekki búið að afgreiða löggildingarumsókn mína í dómsmálaráðuneytinu og lokunin varði seinnipart dags þar til snemma morguns daginn eftir," sagði hann. "Eftirlitsnefndin hefur komið hér, farið yfir reksturinn og ekki gert athugasemdir við hann. Við vinnum í samstarfi við nefndina og fögnum tilkomu hennar." Þorsteinn kvaðst ekki hafa á takteinum fjölda mála sem nefndin hefði fjallað um á starfstíma sínum, en hún tók til starfa 1. oktober samkvæmt endurskoðuðum lögum um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa. "Langflestum þeirra er lokið með því að ekkert hefur þurft að aðhafast," sagði Þorsteinn, sem kvað erindi ýmist send til nefndarinnar eða tilkomin vegna frumkvæðisskyldu hennar. Hann sagði að ákvæði laganna um vörslufjárreikninga fasteignasala hefði tekið gildi 1. apríl, þannig að nú væru lögin orðin virk í heild sinni. "Okkar eftirlit er fólgið í því að stýra mönnum inn á það að fylgja þessum reglum sem hafa verið settar. Ef okkur sýnist að mál þurfi frekari athugunar við köllum við eftir skýringum og gögnum frá málsaðilum til að gefa mönnum færi á að skýra mál sitt. Ef brot reynist alvarlegt getur komið til viðurlaga sem felast í áminningu. Til þess úrræðis hefur ekki verið gripið enn. Ef brotið er alvarlegt eða ítrekað getur komið til tímabundinnar sviptingar löggildingar til að gegna starfi fasteignasala, að ákveðnu ferli undangengnu."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×